
Karína ehf í Kópavogi bauð lægst í jarðvinnu vegna viðbyggingar leikskólans Jötunheima á Selfossi. Tilboð Karínu var einungis 67% af kostnaðaráætlun verksins.
Tilboð Karínu ehf hljóðaði upp á 36,5 milljónir króna en kostnaðaráætlun Sveitarfélagsins Árborgar var 54,4 milljónir króna.
Tíu aðrir verktakar buðu í jarðvinnuna og voru öll tilboðin undir áætluðum kostnaði. Hverafell ehf bauð 40,4 milljónir króna, Mjölnir á Selfossi 41,2 milljónir, Fagurverk ehf 41,8 milljónir, Gröfutækni 42,2 milljónir, Svartaskarð ehf 42,6 milljónir, Þjótandi ehf 42,6 milljónir, Borgarverk ehf 43,7 milljónir, Stórverk ehf 44,3 milljónir, Snilldarverk ehf 46,4 milljónir og Steinvélar ehf 47,6 milljónir króna.
Árborg gekk að tilboði Karínu ehf og var skrifað undir verksamning í morgun, áður en fyrsta skóflustungan að viðbyggingunni var tekin.
