Öll tilboð í uppsteypu hreinsistöðvarinnar yfir áætlun

Gunnar Egilsson og Sveinn Ægir Birgisson tóku fyrstu skóflustunguna að skólphreinsistöðinni 26. ágúst árið 2022. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

K16 ehf í Reykjavík átti lægsta tilboðið í uppsteypu skólphreinsistöðvar á Geitanesi við Ölfusá fyrir neðan Selfoss. Öll tilboðin sem bárust voru yfir áætluðum verktakakostnaði Fasteignafélags Árborgar.

Tilboð K16 hljóðar upp á 273,8 milljónir króna og er 13% yfir kostnaðaráætlun, sem er 241,6 milljónir króna. Þrjú önnur verktakafyrirtæki buðu í verkið. Fortis ehf bauð 292,6 milljónir króna, Alefli ehf 296,4 milljónir og Al-bygg ehf 345,4 milljónir króna.

Verkið tekur til jarðvinnu og uppsteypu hreinsistöðvarinnar, sem er uppsteypt í hólf og gólf á tveimur hæðum, ásamt kjallara. Byggingin er rúmir 550 fermetrar að stærð en í henni verður skólphreinsibúnaður, starfsmannaaðstaða, biofilter og sveifluþró.

Tilboðin voru opnuð í morgun og mun Fasteignafélagið nú yfirfara þau. Steypuvinnu skólphreinsistöðvarinnar á að vera lokið þann 15. desember næstkomandi.

Fyrri greinÞórdís ráðin bæjarritari og sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Næsta greinEf árangur á að nást þá getur enginn skorast undan