Öll tilboðin undir kostnaðaráætlun

Valdimar Bjarnason á Selfossi bauð lægst í 2. áfanga stúkubyggingar við Selfossvöll, tæpar 70 milljónir króna.

Tilboð Valdimars hljóðaði upp á 69.964.772 kr. en kostnaðaráætlunin fyrir verið er rúmar 82,1 milljón króna.

Sex verktakar buðu í verkið en Eðalbyggingar ehf. á Selfossi áttu næst lægsta tilboðið, tæpar 72,5 milljónir króna. Öll tilboðin voru undir kostnaðaráætlun en Byggingarfélagið Laski á Selfossi átti hæsta tilboðið, tæpar 76,0 milljónir króna.

Verkið felur í sér innan- og utanhússfrágang, m.a. að steypa botnplötu veggi og milliplötu, reisingu og frágang þaks, uppsetningu léttra innveggja, frágang innanhúss, lagnir og raflagnir. Gert er ráð fyrir að verkið hefjist á næstu vikum.

Allri vinnu utanhúss skal lokið fyrir 20. júlí 2012 en verklok eru áætluð 2. apríl 2013.