Öll sveitarfélög landsins fá bók að gjöf frá NTÍ

Sveitarfélög landsins eiga von á glaðningi á næstu dögum frá Náttúruhamfaratryggingu Íslands, áður Viðlagatryggingu, í tilefni lagabreytinga og nýs nafns stofnunarinnar.

Um er að ræða bókina Náttúruvá á Íslandi sem kom út fyrir nokkrum árum á vegum stofnunarinnar og Háskólaútgáfunnar.

„Við vorum að ljúka við að pakka og koma í póst rúmlega 70 eintökum af þessari gríðarlegu efnismiklu bók sem vegur heil 3 kg, enda inniheldur hún mikinn fróðleik um eldgos og jarðskjálfta á Íslandi og nýtist bæði sem fræði- og uppsláttarrit,“ segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri NTÍ.

Margir helstu sérfræðingar landsins á sviði náttúruvár nærri 60 manns, lögðu til efni í bókina sem er tæplega 800 síður með um 1.000 ljósmyndum og skýringarmyndum. Þar er fjallað ítarlega um rannsóknir, eldvirkni og jarðskjálfta sem valdið hafa Íslendingum þungum búsifjum gegnum tíðina.

Þörf á stöðugri uppfærslu upplýsinga
„Okkur fannst tilvalið að leggja okkar af mörkum til að koma á framfæri til sveitarfélaganna áhugaverðum og fræðandi upplýsingum um náttúruvá á Íslandi á sama tíma og við vekjum athygli á þeim breytingum sem tóku gildi 1. júlí síðastliðinn á lögum um starfsemi stofnunarinnar. Hún hefur fengið nýtt nafn sem er meira lýsandi fyrir starfsemina og einnig hefur verið gerð breyting á eigin áhættu sem skerpir áherslur í starfseminni þannig að NTÍ hafi ríkara hlutverk í alvarlegum tjónsatburðum en komi minna að í tilvikum þar sem um óverulegt tjón er að ræða,“ segir Hulda Ragnheiður.

Jafnframt er tækifærið notað til að minna á skyldur sveitarfélaga landsins um að senda uppfærðar og réttar upplýsingar til NTÍ um vátryggingarverðmæti mannvirkja sem þeim er skylt að vátryggja. Heimsóknir í öll sveitarfélög landsins árin 2016 og 2017 leiddu í ljós að töluvert vantaði upp á að skyldutryggingar hafnarmannvirkja, opinberra veitumannvirkja og fleiri eigna sveitarfélaga væru í takt við gildandi lög og reglur í sumum sveitarfélögum.

„Þessar heimsóknir skiluðu stórbættum skráningum á vátryggðum eignum en það má alltaf gera betur, enda eru þessar eignir sveitarfélaganna í stöðugri uppbyggingu og þróun. Eftir kosningarnar í vor er líka víða komið nýtt fólk við stjórnvölinn sem við viljum ná til,“ segir Hulda ennfremur.

Fyrri greinLagið varð til eftir stöðuuppfærslu á Facebook
Næsta greinGerðu sig heimakomin í tjaldi sem þau áttu ekki