Öll sveitarfélög á Íslandi verði barnvæn

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, undirrituðu í vikunni tímamótasamstarfssamning fyrir réttindi barna á Íslandi.

Um er að ræða samning um þátttöku félagsmálaráðuneytisins í verkefninu Barnvæn sveitarfélög UNICEF, undir formerkjunum Barnvænt Ísland, með það að markmiði að tryggja aðgengi allra sveitarfélaga að stuðningi við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þannig er ætlunin að stuðla að því að íslensk stjórnvöld og öll sveitarfélög á Íslandi hafi á næsta áratug hafið markvissa innleiðingu Barnasáttmálans og tileinkað sér barnaréttindanálgun í sínum verkefnum, stefnumótun og ákvörðunum. 

Sveitarfélög geta nýtt sér mælaborð um velferð barna
Með samningnum er stigið mikilvægt skref í átt að fjölgun sveitarfélaga sem taka þátt í verkefninu með það að markmiði að þeim fjölgi um sex árið 2020 og tólf árið 2021. Samanlagt er stefnt á að a.m.k. 30 prósent sveitarfélaga á Íslandi hafi fengið viðurkenningu sem Barnvæn sveitarfélög UNICEF við árslok 2021. 

Samhliða því að bjóða sveitarfélögum á Íslandi að taka þátt í verkefninu verður öllum sveitarfélögum á landinu boðið að nýta sér svokallað mælaborð um velferð barna innan sveitarfélagsins. Sveitarfélög munu þannig geta greint með markvissum hætti þau tölfræðigögn sem til eru um velferð barna innan sveitarfélagsins og nýtt við stefnumótun, fjárhagsáætlanagerð og ákvarðanatöku með það að markmiði að tryggja aukið jafnræði og stuðla að því að allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn séu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu, í samræmi við 3. grein Barnasáttmálans. 

Mikilvæg skref í þágu réttinda barna
Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, er afar ánægður með samstarfið og þau mikilvægu skref í þágu réttinda barna á Íslandi sem það felur í sér.

„Sveitarfélög eru sú stjórnsýslueining sem hefur mest, bein áhrif á réttindi og velferð barna á Íslandi. Það er einstakt að stjórnvöld ríkis styðji jafndyggilega við innleiðingu Barnasáttmálans og þessi samningur ber með sér. Með honum skipar Ísland sér í fremstu röð þjóða í þeim efnum og er því einstaklega gleðilegt að ganga til samstarfs við ráðuneytið og sífellt fleiri sveitarfélög á 30 ára afmæli Barnasáttmálans. Aukin áhersla á réttindi barna í sveitarfélögum getur stuðlað að jákvæðri byltingu fyrir börn hér á landi og aukið nýsköpun í þjónustuveitingu sveitarfélaga fyrir börn. Við erum viss um að það efli einnig samtal á milli kynslóða, samtal sem byggir á gagnkvæmri virðingu,“ segir Bergsteinn.

Fyrri greinÍbúar Árborgar orðnir 10.000
Næsta greinAuglýst eftir sóknarpresti í Eyrarbakkaprestakalli