Öll loftför Gæslunnar kölluð út – fallhlífastökkvarar um borð í TF-SIF

Allar þyrlur Landhelgisgæslunnar og flugvélin TF-SIF voru kölluð út vegna rútuslyssins sem varð í Eldhrauni í morgun. Þyrlurnar TF-LIF og TF-SYN héldu á vettvang strax á tólfta tímanum.

TF-GNA fór svo í loftið upp úr hádeginu en kalla þurfti út áhöfn af frívakt. Auk áhafna voru læknar, sjúkraflutningamenn og mannskapur frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins um borð. Fyrri þyrlurnar lentu með tólf slasaða við Landspítalann í Fossvogi á þriðja tímanum. TF-GNA flutti svo tíu manns með minni áverka á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.

Til viðbótar við þyrlurnar var flugvélin TF-SIF kölluð út vegna slyssins. Auk áhafnarinnar voru félagar í Flugbjörgunarsveitinni til taks. Engir stórir flugvellir eru nærri vettvangi slyssins en til stóð að búnaði yrði varpað úr vélinni og björgunarsveitarmenn stykkju frá borði í fallhlífum ef með þyrfti. Ekki kom til þess því beiðni um aðstoð flugvélarinnar var afturkölluð.

Í frétt frá Landhelgisgæslunni segir að fá, ef nokkur, dæmi eru um að öll loftför Landhelgisgæslunnar séu kölluð út vegna sama málsins.

TENGDAR FRÉTTIR:
Alvarlegt rútuslys vestan við Klaustur
Einn látinn og sjö alvarlega slasaðir
Tólf fluttir með þyrlum á sjúkrahús
Vegurinn lokaður fram á kvöld – 300 manns unnu við útkallið

Fyrri greinVegurinn lokaður fram á kvöld – 300 manns unnu við útkallið
Næsta greinBúið að opna veginn