Kveikt var á jólaljósunum í Sveitarfélaginu Árborg kl. 18 í kvöld við fjölmenna athöfn á tröppum ráðhússins á Selfossi. Kaupmenn eru með opið frameftir í kvöld og góð stemmning á götum bæjarins.
Hefð er fyrir því að yngsta afmælisbarn dagsins í Árborg kveiki á jólaljósunum. Rétt um klukkan sex var talið niður áður en Óliver Daði Sverrisson kveikti á ljósunum en hann heldur upp á fimm ára afmælið í dag.
Áður en kveikt var á ljósunum buðu skátar upp á kakó og ungmenni sungu bæði einsöng og í kór.
Víða er opið í verslunum til klukkan 22 í kvöld og var létt stemmning í þeim verslunum sunnlenska.is leit við í og kaupmenn ánægðir með kvöldið.
Dagurinn í dag markar upphaf af Jólum í Árborg 2014 en fjölbreytt dagskrá verður í gangi um allt sveitarfélagið í tengslum við verkefnið, allt fram í byrjun janúar. Gefið verður út sérstakt viðburðadagatal sem dreift verður í hús á Árborgarsvæðinu með þeim fjölmörgu viðburðum sem í boði verða á þessu tímabili.