Olíu stolið af vinnuvélum í Hveradölum

Á tímabilinu frá klukkan 22:00 síðastliðins miðvikudags til klukkan 10:30 fimmtudags var farið inn í iðnaðarhúsnæði í Hrísmýri 5 á Selfossi og þaðan stolið Saurium Space Ægir tjaldvagni með númerinu YMJ53.

Auk tjaldvagnsins var stolið þremur topplyklasettum, iðnaðarryksugu, hleðslutæki og tveimur tjaldstólum.

Um 250 lítrum af dísilolíu var stolið af vinnuvélum Ístaks við Suðurlandsveg í Hveradölum að kvöldi síðastliðins miðvikudags eða síðar um nóttina. Á staðnum hafði þjófurinn skilið eftir áhöld sem notuð voru við að ná olíunni af tönkum vélanna.

Skemmdir voru unnar á gömlum snjóbíl sem stóð á lóð við Ormsvelli á Hvolsvelli. Rúður og ljós voru brotin og skemmdir unnar á yfirbyggingu. Atvikið hefur átt sér stað á tímabilinu frá 18. júni til 23. júní síðastliðinn. Eigandi snjóbílsins ætlar að gera snjóbílinn upp og því er þetta nokkuð tjón fyrir hann.

Lögreglan á Suðurlandi biður alla þá sem veitt geta upplýsingar um þessi þrjú mál að hafa samband í síma 444 2010 eða í tölvupóst á sudurland@logreglan.is.

Fyrri greinDagbók lögreglu: Hentu amfetamíni út um bílhurðina
Næsta greinÖkumenn gætu lent í vandræðum