Olís kolefnisjafnar allan rekstur

Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, og Árni Bragason landgræðslustjóri undirrituðu samstarfssamgnin sl. föstudag. Ljósmynd/Aðsend

Olíuverzlun Íslands hefur kolefnisjafnað allan rekstur félagsins en um er að ræða allan akstur, flug og dreifingu eldsneytis til viðskiptavina félagsins um allt land. Verkefnið er unnið í samstarfi við Landgræðsluna en Olís og Landgræðslan hafa átt í samstarfi undanfarin 30 ár og undirrituðu sl. föstudag samstarfssamning til næstu fimm ára.

„Við erum mjög ánægð með að halda áfram okkar góða samstarfi við Landgræðsluna sem hófst fyrir um 30 árum. Umhverfisstefna Olís byggir á því að tryggt sé, með hliðsjón af eðli starfsemi félagsins, að umhverfissjónarmið séu höfð að leiðarljósi í öllu starfi félagsins. Félagið telur nauðsynlegt að standa vörð um náttúru landsins og vill nýta auðlindir landsins á sjálfbæran hátt og stuðla að vexti þeirra svo sem kostur er,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís.

Jón segir að þótt samningurinn við Landgræðsluna sé til fimm ára þá horfi Olís lengra fram í tímann. „Þetta er samstarfsverkefni sem á sér rætur 30 ár aftur í tímann og ég lít svo á að við munum vinna þetta áfram með Landgræðslunni í framtíðinni.“

Markmið og hlutverk Landgræðslunnar er að vernda, endurheimta og bæta þær auðlindir þjóðarinnar sem fólgnar eru í gróðri og jarðvegi og tryggja sjálfbæra nýtingu lands. Meðal helstu verkefna Landgræðslunnar eru uppgræðsla lands og endurheimt votlendis.

„Við höfum átt einstaklega gott samstarf við Olís í gegnum árin og fögnum áframhaldandi samstarfi við félagið. Olís hefur um árabil unnið með Landgræðslunni að uppgræðslu lands og vitundarvakningu. Stærsta herferðin sem farið hefur verið í á því sviði er Græðum landið með Olís. Olís hefur styrkt Landgræðsluna um tæplega 80 milljónir á um þremur áratugum. Þegar samstarfið við Olís hófst fyrir um 30 árum þá var mikilvægur hluti þess að vekja fólk til vitundar um ástand lands og hvað hægt væri að gera. Sú vinna hefur skilað góðum árangri því fólk er meðvitað um þörfina á að bæta landgæði og að með því að græða upp land bindum við kolefni og tökum þátt í að leysa loftslagsvandann,“ segir Árni Bragason landgræðslustjóri.

Fyrri greinMagnús Öder snýr aftur heim
Næsta greinGöngumaður í sjálfheldu í Goðahrauni