„Ólíðandi að framkalla jarðskjálfta“

Bæjarstjórn Hveragerðis tekur undir áhyggjur íbúa vegna síendurtekinna jarðskjálftahrina sem orsakast af niðurdælingu affallsvatns frá Hellisheiðarvirkjun.

„Það er með öllu ólíðandi að framkallaðir séu jarðskjálftar af mannavöldum, allt að 3,5 á Richter skala, með fyrrgreindum áhrifum á nærumhverfið,“ segir í ályktun sem samþykkt var samhljóða á fundi bæjarstjórnar Hveragerðis í gær.

Bæjarstjórn óskar eftir upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur um hvort að í umhverfismati Hellisheiðarvirkjunar hafi verið gerð grein fyrir þessum afleiðingum niðurdælingar á nærumhverfið. Ennfremur óskar bæjarstjórn eftir því að Orkuveita Reykjavíkur geri grein fyrir því hvort búast megi við sambærilegum jarðskjálftum við niðurdælingu í fyrirhugaðri jarðvarmavirkjun í Hverahlíð.

Bæjarstjórn fagnar frumkvæði Umhverfis- og Iðnaðarráðuneyta en ráðherrar hafa óskað eftir úttekt vísindamanna Veðurstofunnar, Orkustofnunar og Almannavarna á áhrifum jarðskjálftanna.

Það er krafa bæjarstjórnar að aðrar aðferðir verði notaðar til niðurdælingar á Hellisheiðarsvæðinu, svo íbúar í Hveragerði og nágrenni þurfi ekki framvegis að finna fyrir jarðskjálftum vegna hennar.

Fyrri greinSogni verður lokað
Næsta greinEkkert samráð við sveitarstjórnir