Olga Lísa skipuð skólameistari

Menntamálaráðherra hefur skipað Olgu Lísu Garðarsdóttur í stöðu skólameistara FSu. Hún er skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað.

Olga Lísa hefur störf þann 1. ágúst næstkomandi þegar Örlygur Karlsson lætur af störfum.

Í samtali við Sunnlenska segir Olga Lísa að nýja starfið leggist mjög vel í hana en hún var á Selfossi fyrr í vikunni til að kynna sér skólann.

“Þarna er stór nemendahópur og mörg sóknarfæri fyrir skólann,” sagði Olga. Meðal þess sem hún nefndi var möguleikinn að tengja námið atvinnulífinu á svæðinu og undirbúa nemendur fyrir vinnumarkaðinn.

Í FSu hittir Olga fyrir gamlan skólafélaga frá Laugarvatni. Hún útskrifaðist frá ÍKÍ árið 1980 ásamt Þórarni Ingólfssyni, aðstoðarskólameistara skólans.

Auk þess er hún með BA próf í félagsfræðum frá háskóla í Stokkhólmi, tvær diplómugráður í stjórnun frá HÍ og hefur jafnframt setið námskeið í stjórnun, þ.m.t. í Háskólanum á Akureyri.