Olga Lísa komin með lyklavöldin

Skólameistaraskipti urðu í Fjölbrautaskóla Suðurlands í morgun þegar nýr skólameistari, Olga Lísa Garðarsdóttir, tók við lyklavöldunum af Örlygi Karlssyni.

Olga Lísa var valin úr hópi fimm umsækjenda en hún var áður skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupsstað. Í samtali við Sunnlenska segir Olga Lísa að nýja starfið leggist mjög vel í hana en hún mun flytja á Selfoss á næstunni, þegar hún hefur fundið leiguhúsnæði.

Í FSu hittir Olga fyrir gamlan skólafélaga frá Laugarvatni. Hún útskrifaðist frá ÍKÍ árið 1980 ásamt Þórarni Ingólfssyni, aðstoðarskólameistara skólans.

Auk þess er hún með BA próf í félagsfræðum frá háskóla í Stokkhólmi, tvær diplómugráður í stjórnun frá HÍ og hefur jafnframt setið námskeið í stjórnun, þ.m.t. í Háskólanum á Akureyri.

Örlygur hefur starfað við FSu frá því skólinn var stofnaður árið 1981, bæði sem kennari og aðstoðarskólameistari, og hefur hann gegnt starfi skólameistara frá árinu 2008.