Ölfusingar vilja taka á móti flóttamönnum

Bæjarráð Sveitarfélagsins Ölfuss lýsir sveitarfélagið reiðubúið að taka á móti flóttamönnum og sýna þannig samfélagslega ábyrgð í verki.

Þetta kemur fram í tillögu sem var samþykkt samhljóða á fundi bæjarráðs í morgun.

Á fundinum var agt fram erindi frá velferðarráðuneytinu þar sem þess er óskað að þau sveitarfélög sem hafa áhuga á að taka á móti flóttafólki hafi sambandi við ráðuneytið.

Í tillögu bæjarráðs kemur fram að talsverð reynsla sé til staðar í sveitarfélaginu við að aðlaga fólk af erlendu bergi samfélaginu þ.e.a.s. fólki sem kom í þeim tilgangi að vinna tímabundið en sest hefur að í sveitarfélaginu.

„Því teljum við okkur geta boðið okkar sveitarfélag sem griðastað fyrir flóttafólk sem er í þeirri ömurlegu stöðu að þurfa að flýja heimaland sitt. Bæjarráð Ölfuss samþykkir að óskað verði eftir viðræðum við ríkisvaldið um hlutverk og aðkomu bæjarins að móttöku flóttafólks,“ segir í tillögunni.

Fyrri greinEiríkur ráðinn markaðs- og kynningarfulltrúi
Næsta greinKaldur og hrakinn göngumaður sóttur