Ölfusingar vilja friða Reykjadal

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Ölfuss skorar á ríkisvaldið að tryggja fjármagn til uppbyggingar öflugrar starfsemi Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi. Ráðast þarf í víðtækar aðgerðir í viðhaldi húsakosts skólans.

Í bókun bæjarstjórnar af síðasta fundi segir að lögð sé rík áhersla á að Suðurlandsaðsetur nýrrar skógræktarstofnunar verði byggt upp á Reykjum og þannig settar fleiri stoðir undir núverandi starfsemi þar. Jafnframt verði skoðaðir möguleikar á samstarfi við aðra háskóla um nýtingu aðstöðu og lands til rannsókna. Á Reykjum er fullkomið tilraunahús þar sem stundaðar eru hagnýtar rannsóknir í þágu garðyrkjunnar.

Skoðaðir verði til hlítar möguleikar á uppbyggingu fjölbreyttrar ferðaþjónustu með sterka tengingu við garðyrkjufagið. Reykir hafa nú þegar margvíslegt aðdráttarafl fyrir ferðamenn þar sem hægt er að virða fyrir sér hverasvæði, borsvæði sem sýna hvernig nýtingu jarðhita er háttað og gróðurhús með fjölbreyttum gróðri þar sem hægt er að virða fyrir sér þau verðmæti sem sköpuð eru úr jarðhitanýtingunni. Útisvæði skólans eru skógi vaxin og fela í sér fjölbreytta útivistarmöguleika fyrir mismunandi notendahópa.

Þá óskar bæjarstjórn Ölfuss eftir samstarfi við landeiganda um að skoða friðun Reykjadals með það fyrir augum að koma honum undir verndarvæng Umhverfisstofnunar og tryggja þannig viðeigandi landvörslu í þessari náttúruperlu.

Fyrri greinBieber á brókinni í sunnlensku baði
Næsta greinÞór mætir Hetti á útivelli