Ölfusingar skoða lækkuð hafnargjöld

Sveitarfélagið Ölfus er tilbúið að skoða lægra hafnargjald fyrir Herjólf svo hægt verði að nýta Þorlákshöfn sem neyðarhöfn vegna siglinga ferjunnar milli Vestmannaeyja og Landeyjarhafnar.

Fram kemur á vef Vegagerðarinnar, að í vor hafi verið rætt við sveitarfélagið um möguleika á þessu fram til næstu áramóta til að byrja með. Vegagerðin hafi þá ekki gengið að kröfu Þorlákshafnar um hafnargjöld til jafns við það að Herjólfur sigldi sem áður, þ.e.a.s. tvær ferðir á dag hvort sem nota þyrfti aðstöðuna eða ekki.

Ekkert varð því af samningum en Vegagerðin var tilbúin til samninga á öðrum forsendum og var það í höndum Þorlákshafnar hvort áhugi væri á því eða ekki. Fram kemur á vef Vegagerðarinnar, að svo hafi komið að því, að áhugi var til staðar og því óskaði höfnin eftir fundi með Vegagerðinni sem haldinn var í gær. Þar kom fram að sveitarfélagið Ölfuss sé nú tilbúið til að skoða lægra gjald. Sé unnið að tillögum í þá veru og vonandi náist samningar um hafnargjöldin sem fyrst.

Herjólfur sigldi í gær til Þorlákshafnar vegna þess að Landeyjahöfn er lokuð vegna sandrifs. Þá mun skipið sigla þangað tvær ferðir á dag þar til Landeyjahöfn opnast á ný.

Fyrri greinHátíð hjá Hamri
Næsta greinHlynur keppir á HM