Ölfusingar beðnir um að fara vel með heita vatnið

Kíkt í vestsuðvestur af Kögunarhóli. Hvoll er fremst á myndinni. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Á morgun, þriðjudaginn 1. október, hefja Veitur við vinnu við dælu í einni af þremur borholum Austurveitu í Gljúfurárholti og verður sú hola tekin úr rekstri á meðan.

Áætlað er að verkið taki þrjá daga. Vonast er til þess að hinar tvær holurnar anni veitunni á meðan og eins og veðrið hefur verið undanfarið þá gera þær það. En ef hitastig fellur og notkun eykst þá má búast við minni þrýstingi eða heitavatnsleysi hjá íbúum á þessu svæði.

Langtímaveðurspáin er hagstæð en fólk er beðið um að fara vel með heita vatnið á meðan á framkvæmdunum stendur; láta ekki renna í heita potta og hafa glugga lokaða og dyr ekki opnar lengur en þörf krefur til að halda hita á húsum.

Starfsfólk Veitna biðst velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að skapa.

Fyrri greinEykt með lægsta boðið í hjúkrunarheimilið á Selfossi
Næsta greinFyrsta skáldsaga Skúla Thoroddsen