Ölfus tengist Changsha í Kína vinaböndum

Í byrjun vikunnar skrifuðu Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri Ölfuss og Shen Zhengjun, deildarstjóri erlendra samskipta Changsha borgar undir vinabæjarsamning Ölfuss og Changsha við hátíðlega athöfn á Fosshótel Reykjavík.

Eftir athöfnina komu fulltrúar Changsha í heimsókn í Þorlákshöfn, skoðuðu bæinn og snæddu kvöldverð á Hafinu bláa með fulltrúum sveitarfélagsins.

Changsha er höfuðborg Hunan sýslu í Mið-Kína og þar búa 7,3 milljónir íbúa. Borgin er þekkt fyrir ríka arfleið og menningu og hefur hún verið verðlaunuð sem hamingjusamasta borg Kína, átta ár í röð. Mikil áhersla er lögð á umhverfisvæna hugsun í Changsha borg en 53% borgarinnar er þakin grænum svæðum og skógum og stærsti rafbílaframleiðandi heims, BYD er staðsettur í borginni.

Sveitarfélagið Ölfus er ríkt af náttúruauðlindum og má þar nefna nóg af köldu vatni, jarðvarma á Hengilssvæðinu sem nýttur er til húshitunar og rafmagnsframleiðslu. Því eiga Ölfus og Changsha góða samleið þegar kemur að umhverfisvænni hugsun.

Með undirskrift á vinabæjarsamningnum er vonast til að samskipti verði tíð og að báðir aðilar hagnist á samskiptunum á sviðum menningar, tækni, menntunar, ferðamála o.s.frv.