Öldungur slasaðist við Gullfoss

Níutíu ára gamall ferðamaður hrasaði við Gullfoss um helgina. Hann úlnliðsbrotnaði og skrámaðist illa á andliti.

Maðurinn var fluttur með sjúkrabíl til aðhlynningar á slysadeild Landspítalans.

Þá handleggsbrotnaði ungur drengur er hann féll af torfæruhjóli í keppni sem fram fór á keppnissvæði við Þorlákshöfn um helgina.

Eins og gert er ráð fyrir við keppnishald af þessum toga voru sjúkraflutningamenn á sjúkrabíl á staðnum. Þeir hlúðu að drengnum og fluttu hann á slysadeild Landspítalans.