Ólafur ráðinn svæðisstjóri á Suðurlandi

Ólafur Daníelsson. Ljósmynd/Aðsend

Ólafur Daníelsson, byggingarverkfræðingur M.Sc., hefur verið ráðinn svæðisstjóri verkfræðistofunnar EFLU á Suðurlandi.

„Það eru spennandi tímar framundan og hér á Suðurlandi eru víða fjölmörg tækifæri og þróunarmöguleikar til að efla samfélög. Ég mun leggja mikla áherslu á að veita persónulega, áreiðanlega og góða þjónustu í takt við þarfir og kröfur viðskiptavina okkar,“ segir Ólafur.

Öflug þjónusta í heimabyggð
EFLA starfrækir starfsstöðvar á Suður-, Norður-, Austur- og Vesturlandi og í Reykjanesbæ og leggur  ríka áherslu á að veita heildstæða þjónustu í heimabyggð. Á starfsstöð EFLU á Suðurlandi starfa 25 starfsmenn á tveimur skrifstofum, annars vegar á Austurvegi 1-5 á Selfossi og hins vegar á Suðurlandsvegi 1 á Hellu.

Teymisvinna óháð staðsetningu
Ólafur kemur til með að leiða starfsemi EFLU á Suðurlandi og kemur að þróun og uppbyggingu stofunnar til framtíðar með því öfluga og kraftmikla fólki sem þar starfar.

„Okkur er afar umhugað um vellíðan starfsfólks og samvinnu óháð staðsetningu. Við viljum að hæfileikar og styrkleikar starfsfólks fái að njóta sín, því slíkt eykur afköst og vinnugleði,“ bætir Ólafur við.

Ólafur útskrifaðist með M.Sc. í byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands 2005. Hann hefur starfað hjá EFLU frá útskrift sem sérfræðingur í hljóðvistarmálum, verkefnastjóri (IPMA-C) og sem fagstjóri hljóðsviðs. Þá hefur Ólafur sinnt stundarkennslu við Háskólann í Reykjavík.  Ólafur tekur við af fráfarandi svæðisstjóra, Gísla Gíslasyni, sem mun halda áfram og sinna verkefnum á sviði skipulagsmála innan EFLU. Ólafur tók við starfinu 1. júní síðastliðinn.

Fyrri greinTómas kaupir Messann
Næsta greinSéra Önundur grillaði fyrir vinnuskólann