Ólafur Elí tilnefndur til Íslensku lýðheilsuverðlaunanna

Ólafur Elí ásamt forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessyni, Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra og Ölmu D. Möller landlækni. Ljósmynd/Forsetaembættið

Forseti Íslands afhenti Íslensku lýðheilsuverðlaunin í annað sinn við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðastliðinn föstudag.

Ólafur Elí Magnússon, íþróttafrömuður á Hvolsvelli, var einn þriggja sem tilnefnd voru til verðlaunanna í einstaklingsflokki en verðlaunin eru veitt í tveimur flokkum fyrir mikilsvert framlag til eflingar lýðheilsu á Íslandi.

Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, hjúkrunarfræðingur og fagstjóri Sorgarmiðstöðvar, hlaut verðlaunin í einstaklingsflokki en í flokki starfsheilda varð Grunnskólinn á Ísafirði fyrir valinu.

Ólafur Elí hefur unnið ötullega að hvers kyns íþróttastarfi í Rangárþingi eystra í rúm 25 ár. Bæði hefur hann sinnt íþróttakennslu í Hvolsskóla frá 1995, staðið fyrir sívinsælum íþróttaskóla fyrir 4-6 ára börn í tvo áratugi og haldið sundnámskeið á vorin. Hann hefur þjálfað íbúa sveitarfélagsins í borðtennis, blaki, badminton, glímu, frjálsum og ringó svo eitthvað sé nefnt og var einn af stofnfélögum Íþróttafélagsins Dímons þar sem börn og fullorðnir í sveitarfélaginu fá tækifæri til að stunda ýmsar íþróttir.

Fyrri greinHandtóku mann eftir ölvunarakstur á Vatnajökli
Næsta greinSviðið er sproti ársins í sunnlenskri ferðaþjónustu