Ólafur Áki rekinn úr Sjálfstæðisflokknum

„Mér var vísað úr flokknum í gær," segir Ólafur Áki Ragnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Ölfusi, en hann var rekinn úr Sjálfstæðisflokknum í gær.

Framkvæmdarstjóri flokksins, Jónmundur Guðmarsson, hringdi í Ólaf og tilkynnti honum að miðstjórn flokksins hefði ákveðið að vísa honum úr flokknum.

Þetta kemur fram á visir.is.

Sjálfur var Ólafur að gera sig tilbúin til þess að mæta á landsfund flokksins sem hefst í dag, en Ólafur hefur verið skráður í Sjálfstæðisflokkinn og unnið fyrir hann í 20 ár.

„Ástæðan var sögð vera sú að ég tengdist öðru framboði,” segir Ólafur í viðtali á Vísi. Ólafur bauð fram undir formerkjum A-listans í Ölfusi síðast og fékk tvo menn kjörna.

„Ég hélt að það væri frekar stefna flokksins að laða fólk að heldur en að reka það,” segir hann og bætir við að hann hafi trúað því að flokkurinn væri á réttri leið. Núna er hann ekki svo viss.