Ökutæki gert upptækt vegna fjölda brota ökumannsins

Lögreglan á Suðurlandi kærði 39 ökumenn fyrir hraðakstur í liðinni viku. Sá sem hraðast ók var sviptur ökuréttindum og sektaður en hann ók á 157 km/klst hraða á Suðurlandsvegi við Varmadal á föstudagskvöld.

Ökumaðurinn staðgreiddi sektina, rúmar 170 þúsund krónur en hann missir prófið í tvo mánuði og fær þrjá punkta í ökuferilsskrá.

Fjórir ökumenn voru grunaðir um að aka ölvaðir í liðinni viku. Af þeim voru tveir grunaðir um að vera einnig undir áhrifum fíkniefna. Annar þeirra hefur ítrekað komist í kast við lögin vegna samskonar brota og var ökutæki hans haldlagt með það í huga að það verði gert upptækt til ríkissjóðs vegna fjölda brota.

Hinn ökumaðurinn sem eins var ástatt með ók bifreið sinni út af vegi við Úlfljótsvatn og slasaðist við það sem og farþegi í bifreiðinni. Bifreiðinni hafði greinilega verið ekið á töluverðum hraða út af veginum og voru bæði ökumaður og farþegi fluttir með þyrlu LHG á sjúkrahús í Reykjavík.

Ökumaður bifreiðar sem ekið var Suðurlandsveg við Hjörleifshöfða er grunaður um akstur undir áhrifum kannabisefna. Við leit á heimili hans framvísaði hann lítilræði af slíkum efnum sem hann sagði til eigin neyslu.

Í dagbók lögreglunnar kemur einnig fram að skráningarnúmer hafi verið tekin af fjórum ökutækjum vegna þess að þau voru ótryggð í umferðinni.

Fyrri greinStarfsmenn áttu fótum fjör að launa
Næsta greinHimnamóðirin bjarta í Strandarkirkju