Ökumenn sektaðir um fjórar milljónir króna á einni viku

Í liðinni viku voru bókuð 306 mál hjá lögreglunni á Suðurlandi. Þrír voru teknir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og tveir þeirra eru taldir undir áhrifum fíkniefna einnig.

Annar ökumannanna lenti út af Lyngdalsheiðarvegi síðastliðinn fimmtudag um kl. 08:30 og fór þar langt út fyrir veg á hjólunum án þess þó að meiðast alvarlega. Hann var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík til aðhlynningar.

Lögreglan kærði 65 ökumenn fyrir hraðakstur. Af þeim voru sextán sem lentu í hraðaratsjá eftirlitsbíls í Öræfunum og tíu voru kærðir eftir að hafa verið mældir af sérstökum eftirlitsbíl í uppsveitum Árnessýslu.

Í dagbók lögreglunnar kemur fram að þetta eftirlit sé sérstaklega sett á í forvarnarskyni og standa vonir til þess að með því megi draga úr slysum á þessum stöðum með sýnilegri löggæslu. Af þessum 65 ökumönnum voru 44 erlendir einstaklingar á ferð um landið.

Heildarupphæð álagðra sekta vegna umferðarlagabrota í umdæminu í liðinni viku nemur tæpum 4 milljónum króna.

Fyrri greinPíratar ræða kvótamál í Þorlákshöfn
Næsta greinÖlvaður hjólabrettamaður datt „nokkuð oft“