Ökumenn í vandræðum við Þingvelli

Illa búinn smábíll í Uppsveitunum í dag. Ljósmynd/Ingunn

Björgunarsveitir í Árnessýslu hafa sinnt verkefnum vegna ófærðar víðsvegar í sýslunni í dag. Ástandið var einna verst á Þingvallavegi.

Björgunarsveitir mönnuðu lokunarpósta víða í allan dag en þrátt fyrir viðvaranir var nokkur fjöldi ökumanna á ferðinni og lentu þeir í ógöngum í ófærðinni.

Verkefnum björgunarsveitanna fjölgaði eftir því sem leið á daginn, allmargir festu sig á Þingvallavegi sem og einnig þurftu ökumenn aðstoð á Lyngdalsheiði og á Uxahryggjum. Björgunarsveitin Ingunn á Laugarvatni verður í verkefnum fram eftir kvöldi en síðdegis var kallað eftir snjóbíl til aðstoðar.

Þá var Hjálparsveit skáta í Hveragerði kölluð til að svipast um eftir ferðamanni sem sást á gangi á Suðurlandsvegi í Ölfusinu þegar veðrið var sem verst í dag. Hann fannst ekki og náði líklegast að húkka sér far. Annar erlendur ferðamaður kom gangandi að lokunarpósti við Hellisheiði og var að leita leiða til að komast á Eldhesta í Ölfusi.

Fyrri greinGul viðvörun vegna rigningar
Næsta greinUmferðarteppa við Reynisfjall