Ökumenn í vanda á Þingvallavegi

Bílarnir voru losaðir fljótlega en vegna skafrennings og almennrar ófærðar var veginum lokað. Ljósmynd/Björgunarfélagið Ingunn

Björgunarsveitir víðs vegar á landinu hafa verið í verkefnum síðan í morgun, að losa fasta bíla vegna ófærðar. Verkefnin hafa verið á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi og Suðurlandi.

Björgunarsveitin Ingunni á Laugarvatni og Hjálparsveitin Tintron í Grímsnesi fengu til að mynda útkall kl. 10:55 vegna fastra bíla á Þingvallavegi, á milli Miðfells og Steingrímsstöðvar. Bílarnir voru losaðir fljótlega en vegna skafrennings og almennrar ófærðar var veginum lokað.

Þá er búið að loka Suðurstrandarvegi og eins og sunnlenska.is greindi frá í morgun er Suðurlandsvegur lokaður milli Skóga og Víkur í Mýrdal.

Gul viðvörun er í gildi á Suður- og Suðausturlandi í dag og þangað til á morgun – og appelsínugul viðvörun í kvöld og nótt.

Frá útkallinu í morgun. Ljósmynd/Björgunarfélagið Ingunn
Fyrri greinTvö mörk Martin dugðu ekki til
Næsta greinRafmagnslaust í Flóanum