Ökumenn almennt til fyrirmyndar

Eftirlitið fór fram við Suðurlandsveg milli Selfoss og Hveragerðis. Ljósmynd/Lögreglan

Nýverið sameinuðu lögreglumenn umferðareftirlits lögreglustjórans á Suðurlandi og lögreglustjórans á Vesturlandi, krafta sína í víðtæku eftirliti með atvinnuökutækjum sem fóru um Suðurlandsveg milli Selfoss og Hveragerðis.

Umferðareftirlitið leggur áherslu á vöru- og hópbifreiðar auk eftirvagna þeirra. Áhersla var lögð á að kanna hemla ökutækja, þyngd þeirra, frágang farms og aksturs- og hvíldartíma ökumanna. Þá var ástand ökutækja skoðað t.d. ástand á hjólbörðum.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að almennt hafi ökumenn verið til fyrirmyndar og ökutæki í góðu ásigkomulagi. Nokkur ökutæki voru þó boðuð til skoðunar á skoðunarstöð vegna ástands þeirra, skráningarnúmer tekin af og ökutæki kyrrsett og afskipti voru höfð af nokkrum ökumönnun vegna ófullnægjandi frágangs á farmi eða leyfislausra undanþáguflutninga, brota á aksturs- og hvíldartíma.

Fyrri greinAðsóknarmet skiptinema í LBHÍ
Næsta greinÞrjú rauð þegar KFR skellti toppliðinu