Ökumenn þræta við björgunar-sveitarmenn

Talið er að veðrið hér sunnanlands hafi náð mesta styrk sínum og byrji að ganga niður að einhverju leiti milli kl. 19 og 20.

Sjúkrabifreið frá HSu á Selfossi þurfti fyrr í dag að hætta sjúkraflutningi á Suðurlandsvegi við Hellisheiðarvirkjun vegna vélarbilunar. Mikið breytt sjúkrabifreið frá slökkviliði Höfuðborgarsvæðisins kom á móti þeirri bifreið og var sjúklingur fluttur milli bifreiða og hélt áfram til Reykjavíkur í fylgd snjóruðningstækis.

Lögregla hefur komið til aðstoðar við nokkra lokunarpósta þar sem ökumenn virða ekki eða þræta við björgunarsveitamenn við viðkomandi lokanir. Ítrekar lögregla beiðni og fyrirmæli til almennings að vera ekki á ferð að nauðsynjalausu.
Vegir eru víða lokaðir og snjómoksturstæki vegagerðarinnar anna ekki að halda vegum opnum auk þess að hluti þeirra er tiltækur fyrir sjúkrabifreiðar sem hafa þurft að sinna bráðaflutningum með sjúklinga innan Árnessýslu sem og flutningum til Reykjavíkur.
Verið er að undirbúa opnun fjöldahjálparstöðvar í húsnæði Rauða krossins við Eyraveg á Selfossi.

Fyrri greinÁrekstur við Þjórsárbrú
Næsta greinEgill með silfur á Danish Open