Ökumanni gert að binda heyrúllu

Lögreglan að störfum. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Lögreglan á Suðurlandi kærði ökumann dráttarvélar með eftirvagn sem flutti of þungan farm á Suðurlandsvegi síðastliðinn laugardag en viðkomandi var í vinnu við flutning jarðefna.

Þá var ökumaður pallbíls stöðvaður og gert að binda heyrúllu sem hann flutti lausa á vagni bifreiðar sinnar.

Í dagbók lögreglunnar segir að einhverjum kunni að finnast slíkt óþarfi en lendi bifreið með heyrúllu á palli í árekstri, heldur farmurinn áfram þó bifreiðin hemli eða stöðvist af öðrum orsökum. Rúllan gæti þá lent á ökumannshúsinu, sem almennt er ekki gert til að verjast framskriði farms.

Lögreglan framkvæmdi vegaskoðun á þrettán stórum ökutækjum í síðstu viku og var gerð athugasemd við ljósabúnað á einu þeirra.

Fyrri greinTvö óhöpp í Draugahlíðarbrekku
Næsta greinFögrusteinar buðu lægst í Langholtsveg