Ökumaður og farþegi handteknir eftir ákeyrslu

Lögreglan að störfum. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Lögreglan á Suðurlandi kærði 40 ökumenn fyrir að aka of hratt í síðustu viku. Alls hafa þá 1.749 verið kærðir fyrir hraðakstursbrot í umdæminu það sem af er ári.

Fimm ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið ölvaðir, undir áhrifum fíkniefna eða lyfja hvoru tveggja. Í einu tilfellinu var bifreið ekið utan í aðra við Seljalandsfoss og síðan af vettvangi án þess að gera viðvart um tjónið. Ökumaður og farþegi umræddrar bifreiðar voru handteknir skammt frá og færðir í fangageymslur á Selfossi þar sem þeir voru yfirheyrðir þegar þeir voru í ástandi til þess. Málið fer áfram til ákæruvalds til venjubundinnar meðferðar.

Þrír ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma við akstur án þess að nota handfrjálsan búnað. Þrír ökumenn reyndust vera að aka sviptir ökurétti og einn hafði aldrei öðlast ökuréttindi.

Aðrir þrír voru sektaðir fyrir að aka án þess að nota öryggisbelti við aksturinn. Þeir voru allir stöðvaðir á umferðarpósti sem lögreglumenn á Höfn í Hornafirði höfðu sett upp þar innanbæjar.