Ökumaður og farþegi ekki í belti

Þrjár bílveltur urðu í umdæmi Selfosslögreglunnar í liðinni viku. Í tveimur slysanna voru meiðsli minniháttar en í einu þeirra voru ökumaður og farþegi ekki í belti og voru flutt með þyrlu á sjúkrahús.

Bifreið sem ekið var Skeiðaveg valt eina eða tvær veltur og endaði á toppnum á þriðjudag í síðustu viku. Ökumaður, sem var einn í bílnum, var í öryggisbelti og sakaði ekki. Bifreiðin er mikið skemmd.

Þá var bifreið ekið útaf Laugarvatnsvegi og þar á hliðina út í skurð á sunnudagsmorgun. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur. Meiðsl hans reyndust minniháttar.

Þá lenti bifreið utan vegar á Laugarvatnsvegi í gærkvöldi. Ökumaður hennar var að aka fram úr annarri bifreið og virðist hafa fipast við aksturinn með fyrrgreindum afleiðingum. Tvennt var í bílnum og kastaðist annað þeirra út en hitt endaði í aftursæti bifreiðarinnar. Svo virðist sem hvorugt þeirra hafi verið í öryggisbelti.

Þau voru bæði flutt með þyrlu LHG á sjúkrahús í Reykjavík en þyrlan var að koma úr eftirlitsflugi með lögreglu þegar slysið var tilkynnt. Fólkið slasaðist ekki mikið að sögn vakthafandi læknis á Landspítalanum og hefur verið útskrifað af sjúkrahúsinu.

Fyrri greinMargir óku of hratt í vikunni
Næsta grein14,4% samdráttur í umferð yfir Hellisheiði