Ökumaður á sextugsaldri stöðvaður – hafði aldrei fengið bílpróf

Lögreglan á Hvolsvelli stöðvaði ökumann á sextugsaldri um síðustu helgi við almennt umferðareftirlit. Maðurinn var próflaus, og það sem meira var þá hafði hann aldrei fengið ökuréttindi.

Lögreglan heldur uppi öflugu eftirliti við þorrablót í umdæminu og stöðvaði manninn við slíkt eftirlit. Hann var beðinn um að framvísa ökuskírteini en gat það ekki. Ökumaðurinn upplýsti lögreglu þá um að hann væri án ökuréttinda og það sem meira væri, þá hefði hann aldrei öðlast ökuréttindi.

Ökumanninum var gert að láta af frekari akstri og farþegi hans með ökuréttindi i gildi tók við akstri bifreiðarinnar.

Fjögur þorrablót voru í umdæmi Hvolsvallarlögreglu og voru þau vel sótt. Blótin í umdæminu hafa að mestu farið vel fram hingað til og án afskipta lögreglu þó til minni háttar ryskinga eða ósættis hafi komið milli aðila.

Nokkur umferð fylgir þessum samkomum og eftirlit lögreglu er mikið henni samferða og leggur lögregla áherslu á við eftirlit sitt að kanna ökuréttindi og ástand ökumanna.

Fyrri greinFundað um málefni lögreglunnar
Næsta greinSlæm byrjun gegn Haukum