Ókeypis námsgögn í Ölfusi

Bæjarráð Ölfuss samþykkti á fundi sínum í morgun að grunnskólanemendur í sveitarfélaginu fái ókeypis námsgögn þegar skólastarf hefst á næstu dögum.

Kostnaði vegna tillögunnar var vísað til viðaukagerðar við fjárhagsáætlun ársins.

„Við áætlum að þetta sé um ein milljón króna á því skólaári sem nú er að fara í hönd vegna barna í Grunnskólanum í Þorlákshöfn. Við höfum haft þann háttinn á mörg undanfarin ár að skólinn hefur séð um innkaup nær allra námsgagna fyrri nemendur og foreldrar greitt í bekkjarsjóð sem m.a. hefur staðið straum af kostnaði vegna námsgagna og einhverjum skemmtunum fyrir börnin. Foreldrar hafa því ekki þurft að fara eftir námsgögnum fyrir börn sín. Nú stígum við skrefið til fulls og greiðum að fullu fyrir okkar nemendur,“ sagði Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri, í samtali við sunnlenska.is.

Bæjarráð samþykkti tillöguna samhljóða og segir í bókun sinni að þetta sé liður í að gera Sveitarfélagið Ölfus að betri búsetukosti fyrir barnafjölskyldur.

Fyrri greinFyrstu landsleikirnir í íþróttahúsinu á Flúðum
Næsta greinFurðar sig á lækkun hámarkshraða á Langholtsvegi