Ók yfir fót hjólandi pilts

Piltur á bremsulausu reiðhjóli varð fyrir því óláni á Selfossi á tíunda tímanum í gærkvöldi að bíll ók yfir fót hans, með þeim afleiðingum að hann fótbrotnaði.

Slysið átti sér stað á Rauðholti, í íbúðarhverfi í austurbæ Selfoss. Þegar bíllinn nálgaðist piltinn setti hann fótinn niður til þess að stöðva hjólið, sem var bremsulaust, en þá vildi ekki betur til en svo að bíllinn ók yfir fótinn á piltinum.

Pilturinn var fluttur með sjúkrabíl á Landspítalann í Reykjavík, þar sem gert var að meiðslum hans.