Ók ítrekað í burtu án þess að borga

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í vikunni 27 ára gamlan Hvergerðing í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi. Maðurinn var kærður fyrir fjölda brota en hann ók ítrekað á brott frá bensínstöðvum án þess að borga fyrir sig.

Öll brotin voru framin á árunum 2009 til 2010 og dómari segir manninn hafa sýnt einbeittan brotavilja.

Tólf sinnum ók maðurinn í burtu frá bensínstöðvum á Suðurlandi og í Reykjavík án þess að greiða fyrir áfyllinguna. Í sumum tilvikum setti hann einnig bensín á brúsa áður en hann ók á brott.

Í fjögur skipti dældi maðurinn eldsneyti en fór að því búnu inn á bensínstöðina og gerði sig líklegan til þess að greiða fyrir. Í þrjú skipti reyndist greiðslukort mannsins inneignarlaust, og í það fjórða hafði hann gleymt að hafa með sér veski. Í öllum tilvikum fékk hann leyfi til að skjótast eftir peningum og ætlaði að koma „strax“ aftur. Hann skilaði sér hins vegar aldrei.

Dómstóllinn taldi í þessum tilvikum ekki um þjófnað eða gripdeild að ræða, eins og kært hafði verið fyrir, en hugsanlega hafi verið um fjársvik að ræða. Í ljósi framsetningar ákærenda var ekki unnt að færa brotin undir það ákvæði og hann því sýknaður af ákæruliðunum fjórum.

Auk þess að hafa tekið eldsneyti ófrjálsri hendi var maðurinn fundinn sekur um að hafa ekið bíl sínum í fjögur skipti eftir að hafa verið sviptur ökuréttindum.

Þá braut maðurinn gegn ákvæði umferðarlaga um vátryggingarskyldu með því að setja stolnar númeraplötur á bíl sinn.

Allt í allt var maðurinn sakfelldur fyrir skjalfals, tólf gripdeildarbrot, fyrir að hafa fjórum sinnum ekið sviptur ökuréttindum og fyrir að hafa brotið gegn vátryggingarskyldu. Hann hafði sex sinnum sætt refsingum áður, samkvæmt sakarvottorði.

Auk skilorðsbundins fangelsisdóms er manninum gert að greiða sakarkostnað, málsvarnarkostnað og skaðabætur auk vaxta til þeirra olíufélaga sem gerðu einkaréttarkröfur á hendur honum.

Fyrri greinStrandahlaup Stokkseyringa í kvöld
Næsta greinTíkin fannst á Akureyri