Ók í gegnum tré og runna

Betur fór en á horfðist í gærkvöldi þegar ungur ökumaður missti stjórn á bíl sínum á Langholti á Selfossi. Ökuferðinni lauk 100 metrum utan vegar í bakgarði íbúðarhúss við Baugstjörn.

Bíllinn fór útaf Langholtinu í aflíðandi hægri beygju, yfir göngustíg og fram af kanti niður á bílastæði og rétt framhjá húsinu við Ástjörn 9. Þar fór hann í gegnum tvö runnabelti og yfir veglegar trjáplöntur áður en hann stöðvaðist í limgerði á milli tveggja íbúðarhúsa í bakgarði við Baugstjörn með framendann uppi á tré.

Ökumanninn sakaði ekki en bíllinn er talsvert skemmdur. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er ástæða óhappsins mögulega sú að ökumaðurinn hafi fipast og stigið á bensíngjöfina í stað bremsunnar.

Fyrri grein47 keppendur tóku þátt á fertugasta mótinu
Næsta greinFjárhagsáætlun og framtíð Árborgar