Ók framhjá naglamottu og var „keyrður út“ við Selfoss

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Maðurinn sem lögreglan á Suðurlandi handtók á laugardagskvöld eftir eftirför á Suðurlandsvegi var kærður fyrir ölvunarakstur.

Hann gisti fangageymslur á Selfossi um nóttina og við yfirheyrslu í gær kannaðist hann við brot sín en gat litlar skýringar gefið á athæfinu.

Lögreglan fékk tilkynningu á laugardagskvöld um bíl sem rásaði mikið á Suðurlandsvegi vestan við Litlu kaffistofuna. Bíllinn ók í austurátt og voru lögreglubílar sendir á móti honum frá Selfossi auk lögreglubíls frá Reykjavík.

Maðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum á Hellisheiði og ók áfram í austur. Lögreglan skaut út naglamottu við Kotströnd en maðurinn kom sér framhjá henni. Veruleg hætta var af aksturslagi mannsins sem ýmist ók á miklum hraða eða litlum og rásaði mjög og var því gripið til þess ráðs að nota lögreglubifreið til að „keyra hann út“, eins og það er orðað í dagbók lögreglunnar.

Það var gert þar sem hraði hans var orðinn lítill í hringtorgi vestan við Selfoss og var maðurinn handtekinn í kjölfarið. Litlar sem engar skemmdir urðu á lögreglubíl og minniháttar á bíl ökumannsins.

Annar undir áhrifum
Lögreglan kærði tvo ökumenn fyrir ölvunarakstur í síðustu viku. Hinn ökumaðurinn var stöðvaður á Þorlákshafnarvegi á föstudagskvöld. Hann er einnig grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna við aksturinn. Maðurinn færður á lögreglustöð til blóðsýnatöku en var frjáls ferða sinna að því loknu.

Handtekinn eftir eftirför á Suðurlandsvegi

Fyrri greinLangaði að vera ballettdansari
Næsta greinListagjöfum tekið fagnandi