Ók á rúmlega tvöföldum hámarkshraða

Áttatíu mál voru bókuð hjá lögreglunni á Hvolsvelli í liðinni viku. Vel var fylgst með ökuhraða og voru 26 ökumenn stöðvaðir fyrir hraðakstur.

Sá sem hraðast ók var stöðvaður snemma á sunnudagsmorgun vestan við Hellu á 146 km hraða þar sem leyfilegur hraði er 70 km. Samkvæmt sektarreikni Umferðarstofu má ökumaðurinn eiga von á 140.000 króna fjársekt, sviptingu ökuleyfis í þrjá mánuði og þremur refsipunktum í ökuferilsskrá.

Sjö aðrir af þessum 26 ökumönnum voru á 120 km hraða og upp í 131 km hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km.

Sérstakt samvinnuverkefni og átak verður í sumar eins og undanfarin sumur við ríkislögreglustjóra um mælingar á ökuhraða í umdæmi Hvolsvallarlögreglunnar og verður það til viðbótar við almennt hraðaeftirlit.

Í vikunni voru nokkur ökutæki boðuð í skoðun og ökumenn m.a. kærðir fyrir að virða ekki umferðarmerki.

Annars var vikan hjá lögreglumönnum á Hvolsvelli, Klaustri og í Vík og í dagbók þeirra kemur fram séstök ánægja með að engin alvarleg slys voru tilkynnt til lögreglunnar í vikunni.