Óheimilt að synja grönnum sínum um framkvæmdaleyfi

Sveitarstjórn Ölfuss var ekki heimilt að staðfesta synjun skipulagsnefndar Ölfuss á framkvæmdaleyfi til handa Sveitarfélaginu Árborg sem vildi bora rannsóknarholu á vatnstökusvæði sínu við rætur Ingólfsfjalls.

Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem kynntur var á fimmtudag. Málið hefur tekið nokkurn tíma í meðförum nefndarinnar, því það á rætur að rekja til ákvörðunar sveitarstjórnar Ölfuss frá því á haustdögum 2013.

Sveitarfélagið Árborg hafði sótt um að bora rannsóknarholur á fyrrgreindu svæði til að kanna jarðlög og jarðskjálftasprungur. Skipulagsnefnd Ölfuss hafnaði erindi nágranna sinna á þeim forsendum að í ferli væri umsókn Árborgar um að taka eignarnámi land á svæðinu sem um ræðir. Landeigendur og Sveitarfélagið Ölfus höfðu lagst gegn eignarnáminu.

Tvö aðskilin mál
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar er á þá leið að um tvö aðskilin mál sé að ræða og því ekki hægt að synja um framkvæmdaleyfi á umræddum forsendum.

Að sögn Ástu Stefánsdóttur getur Árborg nú lagt aftur inn umsókn um framkvæmdaleyfið. Í millitíðinni hefur Árborg afturkallað eignarnámsbeiðni sína, sem lá fyrir í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.

„Við sóttum um þetta leyfi til að kanna möguleika á því að finna þar meira vatn, enda hefur okkur vantað vatn,“ segir Ásta. Raunar hafi vatnsstaðan verið ágæt undanfarin tvö sumur vegna rigninga en á þurrkasumrum hefur verið vatnsskortur. Ekki liggur fyrir að sögn Ástu hvenær leyfisbeiðnin verður lögð inn hjá skipulagsnefnd Ölfuss.

Fyrri greinAnd­lát: Eggert Hauk­dal
Næsta greinHanna með 13 mörk í öruggum sigri