„Ógrynni af hlutum sem væri hægt að finna not fyrir“

Ingunn Jónsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þessa dagana stendur yfir hönnunar- og nýsköpunarkeppnin „Úrgangur í auðlind“. Að keppninni standa Hveragerðisbær, Listasafn Árnesinga og Umhverfis Suðurlands.

„Keppnin er hugsuð sem hönnunar- og nýsköpunarkeppni sem hefur þann tilgang að breyta „úrgangi í auðlind“ sem í stuttu máli þýðir að finna not fyrir það sem að öðrum kosti færi í ruslið. Við hendum alveg ógrynni af hlutum sem hægt væri að finna not fyrir, með smá hugviti,“ segir Ingunn Jónsdóttir, verkefnastjóri Umhverfis Suðurland, í samtali við sunnlenska.is.

„Aðstandendur bæjarhátíðarinnar Blóm í bæ, sem haldin er í Hveragerði, höfðu samband við okkur um að standa að þessari keppni með þeim þar sem yfirskrift hátíðarinnar í ár er „græna byltingin“ þar sem mikil áhersla verður á umhverfismál og grænar lausnir.“

„Okkur fannst þetta spennandi verkefni til þess að leggja lið enda er megin tilgangur Umhverfis Suðurland að vekja athygli á umhverfismálum almennt og auka umhverfisvitund Sunnlendinga,“ segir Ingunn.

Ingunn segir að reglurnar séu mjög einfaldara. „Tillagan þarf að vera ný leið eða ný hugmynd um (endur)nýtingu á einhverju sem annars væri hent. Tillagan getur snúist um leiðir/aðferðafræði til þess að endurnýta; hún getur verið hlutur með nýtt hlutverk; nýr hlutur búin til úr einhverju sem annars væri flokkaður sem rusl og svo framvegis og svo framvegis. Tillagan gæti þess vegna verið listaverk búið til úr afgangs efni sem hefur þar af leiðandi öðlast framhaldslíf.“

Vegleg verðlaun í boði
„Keppnin er farin í loftið og erum við þessa dagana að taka á móti tillögum sem geta verið í formi vöru og/eða verka, hugmynda (ljósmynda) á blaði eða hverju öðru formi sem henta tillögunni. Þátttakendur senda tillögur til okkar á netfangið umhverfi@sudurland.is og ef um er að ræða hlut eða annað sem þarf að skila inn er jafnframt best að hafa samband við okkur svo hægt sé að taka á móti tillögunni,“ segir Ingunn og bætir því við að vegleg verðlaun séu í boði fyrir áhugaverðustu tillöguna.

Aðspurð segir Ingunn keppnina vera fyrir alla Sunnlendinga. „Frá Þorlákshöfn í vestri og austur til Hafnar í Hornafirði. Og allan aldur, einstaklinga, fjölskyldur eða aðra hópa.“

„Við hvetjum Sunnlendinga, sem og aðra til þess það fylgjast með okkur á www.umhverfissudurland.is og Facebook-síðunni okkar. Þar sem má finna ýmsan fróðleik um allt er viðkemur umhverfismálum. Við erum jafnframt með mánaðarlegan póstlista sem er vel þess virði að vera áskrifandi að og fá til sín ýmsan fróðleik um umhverfismál á mannamáli. Einnig hvetjum við alla til þess að koma við á Blóm í bæ í Hveragerði dagana 14.-17.júní og skoða bæði innsendar tillögur sem og ýmislegt sem tengist umhverfismálum,“ segir Ingunn að lokum.

Síðasti skiladagur tillagna er 12. júní. Úrslitin verða svo kynnt þann 15. júní á Blóm í bæ.

Fyrri greinMeira flokkað og minna hent í Rangárvallasýslu
Næsta greinBarbára með glæsimark í tapi gegn Val