Ógnaði ungum drengjum með hnífi

Tvítugur Selfyssingur var í morgun dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir hættulega líkamsárás, hótanir og vopnaburð.

Í júní í fyrra gekk maðurinn fram á hóp drengja á planinu við Hótel Selfoss. Þeir lentu í orðaskaki sem endaði með því að maðurinn dró upp hníf og ógnaði 11 ára dreng og tók síðan 12 ára gamlan dreng hálstaki og lyfti honum þannig að meðvitund drengsins skertist.

Maðurinn hvarf af vettvangi en gaf sig svo fram við lögreglu.

Ákærði er greindur með hegðunarröskun af ýmsu tagi. Dómari taldi að hann hafi samt mátt gera sér fulla grein fyrir því sem var rétt eða rangt í hans stöðu og orsök og afleiðingu verknaðarins.