Oftast strikað yfir Ásmund

Talsvert var um útstrikanir á kjörseðlum í Suðurkjördæmi um helgina. Flestar útstrikanir voru hjá Sjálfstæðismönnum þar sem nafn Ásmundar Friðrikssonar lenti oftast undir blýanti kjósenda.

Samkvæmt upplýsingum frá Karli Gauta Hjaltasyni, formanni yfirkjörstjórnar í kjördæminu, var strikað yfir nöfn þingmanna á rúmlega 700 atkvæðaseðlum. Í flestum tilvikum voru það þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem strikað var yfir, eða á 577 atkvæðaseðlum.

Ásmundur Friðriksson, sem skipaði 3. sæti Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, var strikaður út á um 400 atkvæðum. Útstrikanirnar höfðu ekki áhrif á úrslit kosninganna og heldur Ásmundur því 3. sætinu.

Rúmlega eitthundrað atkvæðum Samfylkingarinnar var breytt og var það Björgvin G. Sigurðsson, sem skipaði annað sæti flokksins í Suðurkjördæmi, sem var strikaður út í flestum tilvikum.

Að sögn Karls Gauta eru þetta heldur færri útstrikanir en í Alþingiskosningunum árið 2009. Upplýsingar um útstrikar í hinum kjördæmunum fimm eru ekki tilbúnar en liggja fyrir síðar í vikunni.

mbl.is greindi frá þessu

Fyrri greinSelfyssingar Íslandsmeistarar í 4. flokki
Næsta greinKeypti pizzu með fölsuðum seðli