Ofsaveðri spáð á morgun

Veðurstofan hefur sent frá sér fárviðrisspá fyrir morgundaginn og hvetur Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra alla að taka þá spá alvarlega og fylgjast vel með veðri og færð.

Langt suður í hafi er nú lægð í myndun. Hún dýpkar með eindæmum hratt í nótt og er þrýstingi í miðju hennar spáð 944 mb seint annað kvöld og á hún þá að vera stödd suður af Reykjanesi. Á þeirri stundu verður 1020 mb hæðarhryggur skammt N af Scoresbysundi á austurströnd Grænlands og heldur hann á móti lægðinni. Saman valda þessi tvö veðrakerfi vindstyrk af styrk ofsaveðurs eða fárviðris yfir Íslandi.

Það hvessir á morgun og dregur úr frosti, fyrst sunnantil. Austan 20-25 m/sek og snjókoma sunnanlands eftir hádegi. Víða ofsaveður eða fárviðri á landinu um kvöldið, 25-35 m/sek með slyddu eða snjókomu. Hiti um frostmark annað kvöld, en 0 til 5 stig sunnan heiða.

Fárviðrið skellur á sunnanvert landið eftir kl. 15 á morgun. Eftir kl. 19 má búast við ofsaveðri eða fárviðri um allt land. Með fylgir úrkoma og verður hún á formi snjókomu og því má búast við glórulausum byl. Búast má við miklu úrkomumagni um landið austanvert. Seint annað kvöld er útlit fyrir að það hlýni nægilega sunnantil á landinu til að úrkoma verði á formi slyddu eða rigningar.

Til að setja væntanlegt veður í samhengi skal bent á að spáin fyrir morgundaginn hljóðar uppá miklu verra veður en var núna í vikunni sem er að líða (þriðjudag, föstudag, laugardag).

Ofsaveður eru 11 gömul vindstig (skali Beaufort) og er þá meðalvindhraði meiri en 28 m/s. Fárviðri eru 12 gömul vindstig og er þá meðalvindhraði meiri en 32 m/s.

Björgunarfélag Árborgar hvetur einnig fólk til þess að gera ráðstafanir vegna veðurspárinnar en m.a. gæti færð spillst og skyggni orðið afleitt en kl. 18:00 spáir 22m/s og snjókomu á Hellisheiði.

Fyrri greinSlökkviliðsmenn í heimsókn
Næsta greinÞór lagði Hött í bikarnum