Ófremdarástand í sjúkraflutningum á Suðurlandi

Stefán Pétursson, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, segir ófremdarástand í sjúkraflutningum á Suðurlandi.

Heildarfjöldi sjúkraflutninga í umdæminu hafi aukist um nærri fimmtíu prósent á fimm árum en fjöldi sjúkraflutningamanna ekki aukist í samræmi. Þeir séu að niðurlotum komnir af álagi.

„Frá árinu 2011 til 2015 hefur heildarfjöldi sjúkraflutninga á Suðurlandi vaxið um 46 prósent og fjöldi bráðaútkalla vaxið um 88 prósent, millistofnanaflutningar um 52 prósent og svo fylgir í kjölfarið vegalengd ekinna kílómetra á sjúkrabílum sem hefur vaxið um 89 prósent. Þetta eru náttúrlega svakalegar tölur“ sagði Stefán í samtali við fréttastofu RÚV.

Að mati Stefáns skýrist aukningin að miklu leyti vegna fjölgunar erlendra ferðamanna. Hann segir þá fyrst og fremst fara um Suðurlandsundirlendið, til að mynda Gullna hringinn. Í fyrra hafi einn af hverjum sjö sjúkraflutningum vegna erlendra ferðamanna. Sjúkraflutningamönnum hafi ekki fjölgað í samræmi við aukningu í sjúkraflutningum.

Stefán segir að farið hafi verið fram á það við stjórnvöld að fjárframlög verði aukin til sjúkraflutninga: „Árleg fjárframlög til rekstrarins er í engu samræmi við þessa hröðu aukningar sem hefur orðið og svo er það kannski líka vegna niðurskurðar og hagræðingar.“ Þá segir Stefán að sjúkraflutningamenn vera undir miklu álagi: „Það er mikil yfirvinna. Við erum að niðurlotum komnir. Þetta er ófremdarástand.“

Frétt RÚV