Öflugur jarðskjálfti í miðbæ Selfoss

Hreyfingarár heilsueflandi framhaldsskóla hefst í dag og í tilefni af því hoppuðu nemendur og kennarar flestra skóla í Árborg í miðbæ Selfoss í morgun og bjuggu til jarðskjálfta.

Fjölbrautaskóli Suðurlands er heilsueflandi framhaldsskóli og nemendur og kennarar skólans hittust í bæjargarðinum við Sigtún ásamt grunnskóla- og leikskólabörnum frá Selfossi og ströndinni og hoppaði allur hópurinn – hátt í eittþúsund manns.

Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði er staðsett við bæjargarðinn og komu starfsmenn miðstöðvarinnar á staðinn og mældu jarðskjálftann sem myndaðist við hoppið. Skjálftinn kom skýrt fram á mæli eins og sjá má hér að neðan.

Myndin sýnir mælingar á tveimur jarðskjálftum í kjallaranum á Jarðskjálftamiðstöðinni á Selfossi. Nánar tiltekið lárétta hröðun yfirborðs jarðar í jarðskjálftunum tveimur.

„Suðurlandsskjálftinn (blár) var svo stór og hröðunin á Selfossi svo mikil að við urðum að minnka framsetninguna á þeirri mælingu tífalt! Litli skjálftinn rétt við Selfoss hér um árið er síðan sýndur rauður, og teiknaður eins og mælingin var hér í kjallaranum. Síðan sýnir myndin líka mælinguna í Bæjargarðinum (appelsínugult) þegar skólabörnin hoppuðu hvað allt af tók til þess að líkja eftir raunverulegum jarðskjálfta,“ segir dr. Benedikt Halldórsson, fræðimaður við Jarðskjálftamiðstöðina, og bætir við að vel hafi tekist til.

„Meginmunurinn er kannski sá að hinar mælingarnar voru í kjallaranum en sú af „manngerða“ jarðskjálftanum var úti í Bæjargarðinum. Það breytir því ekki að hópurinn bjó til talsverðan hristing sem vakti mælinn og bjó til þessa fínu mælingu. Ef við ímyndum okkur að þessi appelsínugula mæling hafi verið vegna jarðskjálfta af náttúrunnar hendi, þá má segja, í anda þessarar skemmtilegu æfingar í morgun, að hún líktist ef til vill dæmigerðum Suðurlandsskjálfta sem á sér stað í 60-80 km fjarlægð frá Selfossi,“ sagði Benedikt ennfremur.

hoppskjalfti2012_625275613.jpg

Fyrri grein42 eiga systkini í skólanum
Næsta greinÆgir upp í 2. deild