Öflugra en gosið í Eyjafjallajökli

Vísindamenn flugu yfir gosstöðvarnar í Grímsvötnum í kvöld og mældu gosmökkinn í um 20 kílómetra hæð. Gosið er nokkuð öflugra en gosið í Eyjafjallajökli.

Í 2-3 kílómetra hæð lagði gosmökkinn til suðurs og suðvestur en hærra uppi lagði hann í austurátt. Gosið er mun öflugra en það sem var í Grímsvötnum 2004 og nokkuð öflugra en gosið í Eyjafjallajökli.

Endurreiknaðar nákvæmnisstaðsetningar á skjálftum í upphafi gossins núna gefa svipaðar niðurstöður og frá gosinu 2004. Ýmislegt fleira bendir til að gosið sé á svipuðum stað nú og var þá.