Ofkrýndar holtasóleyjar á Ingólfsfjalli

Margrét Ófeigsdóttir á Selfossi fann ofkrýndar holtasóleyjar á Ingólfsfjalli í síðustu viku en mjög sjaldgæft er að sjá holtasóley ofkrýnda.

Margrét fann tvær ofkrýndar plöntur á fjallinu en það kallast ofkrýning þegar blómið er með óeðlilega mörg krónublöð. Holtasóley hefur venjulega átta krónublöð en ofkrýnd blóm geta haft meira en tuttugu blöð.

Holtasóley er að rósarætt og er ofkrýning þekkt í þeirri ætt þó að sjaldgæft sé að finna ofkrýndar holtasóleyjar. Eftir lauslega athugun sunnlenska.is á netinu fannst ein fréttaumfjöllun um ofkrýnda holtasóley, úr Tímanum árið 1962.

Holtasóley var valin þjóðarblóm Íslendinga árið 2004 enda útbreidd víða um land.

holtasoley_ofkrynd_796989191.jpg