Ofbeit hrossa meira áberandi en áður

Landgræðslan segir að beitarhólf hrossa á Suðurlandi liggi víða undir skemmdum vegna ofbeitar.

Á þessum tíma ársins ber alltaf nokkuð á þessu vandamáli en svo virðist sem það sé meira áberandi nú en oft áður.

Orsakir þessa kunna að vera margar s.s. minni hey, fjölgun hrossa eða langvarandi beitarálag sem nú kemur fram með þessum hætti.

Tjón á landi vegna ofbeitar kemur fyrst og fremst niður á frjósemi landsins og þar með á viðkomandi landeiganda. Uppskera minnkar, rofdílar myndast, rætur rýrna og landið ber færri skepnur.

Í sumum tilfellum þarf að grípa til dýrra og langvarandi aðgerða til þess að lagfæra tjón eftir ofbeit þannig að þegar upp er staðið getur kostnaður landeiganda af slæmri landnýtingu orðið verulegur og íþyngjandi. Því sé brýnt að fylgjast vel með ástandi lands og skipuleggja beitina eftir því.

Frétt Landgræðslunnar