Of snemmt að lýsa yfir goslokum

Síðast gaus að einhverju ráði í Eyjafjallajökli í fyrstu vikunni í júní. Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, segir þó of snemmt að lýsa yfir goslokum.

„Við treystum okkur ekki alveg strax til þess að tilkynna goslok. Reynslan frá 1821-1823 bendir til að gos í Eyjafjallajökli geti legið niðri mánuðum saman. Einnig hafa komið dálitlar sprengingar öðru hvoru eftir að síðast gaus svo heitið gæti, 4.-7. júní,“ sagði Magnús Tumi í samtali við sunnlenska.is.

„Sumstaðar þykir rétt að segja gosi lokið þegar eldfjall hefur ekki bært á sér í þrjá mánuði,“ segir Magnús Tumi ennfremur. „Enn eru tveir mánuðir í það.“