Slysavarnafélagið Landsbjörg vill koma því á framfæri að nú er ekkert ferðaveður á hálendinu frekar en víða um land.
Í morgun hefur hálendisvakt björgunarsveita staðið í ströngu við að aðstoða ferðamenn sem eru að leggja á hálendið eða þar á ferð. Meðal annars hafa brotnað rúður í bílum og þeir farið á bólakaf í vatnsföll á svæðinu.
Í Landmannalaugar og um Nyrðra Fjallabak er þvi sem næst ófært vegna vatnavaxta og mikils sandstorms og biður Slysavarnafélagið Landsbjörg starfsfólk bensínstöðva, veitingastaða og annara viðkomustaða ferðamanna að vara þá eindregið við að vera á ferð meðan veðrið gengur yfir.