Óeðlilegt að tekjuaukning ríkisins vegna ferðaþjónustu nýtist ekki lögreglunni

Bæjarráð Árborgar hefur áhyggjur af stöðu mála hjá lögreglunni á Suðurlandi. Aukið fjármagn vantar til embættisins og beinir bæjarráð því til innanríkisráðuneytisins að fjármagn til málaflokksins verði aukið.

Kjartan Þorkelsson, lögreglustjóri og Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn, komu á fund bæjarráðs í gær og fóru yfir stöðu mála. Þeir gerðu grein fyrir þörf lögreglunnar fyrir aukið fjármagn, en um 200 milljónir króna vantar til embættisins, og illa hefur gengið að fá aukið fjármagn.

Á fundinum var meðal annars einnig farið yfir samantekt vegna heimilisofbeldismála sem lögregla og félagsþjónustur sveitarfélaga sinna sem sameiginlegu verkefni.

Fjölgun ferðamanna hefur haft veruleg áhrif á verkefni lögreglunnar og telur bæjarráð óeðlilegt að tekjuaukning ríkisins vegna stóraukinnar ferðaþjónustu nýtist ekki til að mæta álagi í löggæslu. Bæjarráðið skorar á yfirvöld að sjá til þess að tekjuaukning ríkisins skili sér til rekstrar innviða samfélagsins þannig að unnt sé að sinna nauðsynlegum verkefnum lögreglu.